Vestmannaeyjabær var í Héraðsdómi Suðurlands dæmdur til að greiða Jóhannesi Þór Sigurðssyni og Blámanni ehf. ríflega 3,1 milljón í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum auk 1,9 milljóna málskostnaðar vegna tjóns sem Jóhannes Þór varð fyrir. Jóhannes Þór er eigandi fasteignar austast í Vestmannaeyjabæ og taldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna uppgraftar mannvirkja sem lentu undir gosefnum við eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973.

Uppgröftur hófst árið 2005 og kemur fram í dómnum að íbúinn hafi óskað eftir viðeigandi ráðstöfunum af hálfu bæjarins vegna vikurfoks, án þess að þær hafi verið nægilegar. Dómari taldi að tjón á fasteign og bifreiðum hefði ekki verið hrakið af Vestmannaeyjabæ og dæmdi hann því til greiðslu skaðabóta.