Gjaldskrá Herjólfs verður lækkuð, afsláttur til heimamanna hækkaður og ferðum fjölgað um 600, á sama tíma og fjölgað verði í áhöfn með yfirtöku Vestmannaeyjarbæjar á rekstri ferjunnar sem samkomulag hefur nú náðst við ríkið og Vegagerðina um. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum hefur sent frá sér.

Nú fyrir skömmu lauk fundi í bæjarstjórn Vestmannaeyja þar sem fjallað var um samning milli Vestmannaeyjabæjar og Vegagerðarinnar um rekstur Herjólfs sem lagður hefur verið fram af hálfu Ríkisins. Á fundinum samþykkti bæjarstjórn samninginn  einróma og þar með að taka við rekstri Herjólfs eftir að nýtt skip hefur þjónustu eigi síðar en 8. okt. 2018.

Samningurinn sem er til tveggja ára felur í sér:

  • Rekstur Herjólfs verður í sjálfstæðu félagi í eigu Vestmannaeyjabæjar sem þýðir að hann verður algerlega og með öllu óháður öðrum rekstri sveitarfélagsins.
  • Ferðum mun á samningstímanum fjölga um að lágmarki hátt í 600 á ári.  Gert er ráð fyrir áætlunarferðum frá 06.30 á daginn fram til miðnættis.
  • Skipið sigli alla daga ársins, þar með talið á stórhátíðum.
  • Afsláttur fyrir heimamenn fer úr 40% í 50% og verður veittur án þess að slíkt reyni á inneignakerfi líkt og nú er.  Gjaldskrá verður að öðru leyti nánast óbreytt frá því sem nú er.  Þar með talið að sama gjaldskrá gildi í Landeyjahöfn og Þorlákshöfn.
  • Störfum um borð mun fjölga nokkuð frá því sem nú er enda gert ráð fyrir að skipið verði mun meira í notkun.  Gert er ráð fyrir þremur áhöfnum og tveimur vöktum hvern dag.
  • Herjólfur verður til staðar sem varaskip og nýttur ef þörf verður á.
  • Bókunarkerfi verður tekið til algerrar endurskoðunar.  Þar með talið er gert ráð fyrir að notendur geti bókað ferðir, greitt þær, breytt bókunum og sinnt öllum öðrum þátttum í gegnum símaforrit og/eða tölvu.
  • Upplýsingagjöf til notenda verður stóraukin og höfuðáhersla lögð á þjónustu við heimamenn og gesti þeirra.
  • Verði hagnaður af rekstri hins opinbera hlutafélags verður honum varið til að auka þjónustu og/eða lækka gjaldskrá.