Í byrjun september mun Hagstofan og Seðlabankinn birta nýjar hagtölur í samræmi við alþjóðlega staðla. Þeir voru kynntir á blaðamannafundi í Seðlabankanum í gær. Stöðlunum er ætlað að endurspegla betur þær efnahagslegu stærðir sem mældar eru í þjóðarbúskapnum, meðal annars með því að taka tillit til ólöglegrar starfsemi og með því að telja rannsókn og þróun til fjármunamyndunar. Að sögn Guðrúnar Ragnheiðar Jónsdóttur, deildarstjóra þjóðhagsreikninga og opinberra fjármála hjá Hagstofunni, eru áhrif nýrra þjóðhagsreikninga nokkuð víðtæk en ætla má að hún bæti 3-4% við landsframleiðslu.

Nú þegar hafa nokkur Evrópulönd, auk Ástralíu, Bandaríkjanna og Kanada innleitt hina nýju staðla og verða sömu staðlar innleiddir hjá öðrum Evrópuríkjum í september. Að sögn Guðrúnar eru áhrifin nokkuð svipuð þegar kemur að umfangi ólöglegrar starfsemi en alla jafna eru áhrif þess að taka inn rannsókn og þróun sem fjárfestingu í þjóðhagsreikninga öllu minni en gengur og gerist í nágrannalöndunum.

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun.

VB Sjónvarp ræddi við Guðrúnu.