*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 21. desember 2017 14:07

Bæta 665 milljónum í sauðfjárrækt

Fjáraukalög ríkisstjórnarinnar bætir 300 milljónum í beina styrki til sauðfjárbænda auk 200 milljóna í svæðisstuðning.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár er lagt til að 665 milljónir króna fari í viðbótarframlag til landbúnaðarins, þar af 300 milljónir beint í greiðslur til sauðfjárbænda miðað við fjölda kinda á vetrarfóðrum.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun bætast 25 milljarðar í aukin útgjöld við fjárlög ársins, en það er sama upphæð og upphaflega var lagt með að yrði afgangur af ríkisrekstrinum í ár.

Auk 300 milljónina er lagt til að 200 milljónir króna verði varið í svæðisbundin viðbótarstuðning, 100 milljónir í verkefni til kolefnisjöfnunar, nýsköpunar og markaðssetningar og 15 milljónir í úttekt á afurðastöðvakerfinu. Síðan er gert ráð fyrir allt að 50 milljónum króna til viðbótar í stuðning við hagræðingu í sláturhúsum byggt á þeirri úttekt.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórninni sem mynduð var í kjölfar kosninganna 2016, hafði lagt fram tillögur þar stefnt var á að greiða bændum fyrir að hætta eða draga úr sauðfjárrækt.

Var markmið tillagnanna að fé yrði fækkað um fimmtung vegna tekjuskerðingar bænda vegna lækkandi afurðaverðs en þeir gætu haldið allt að 90% af greiðslum sínum næstu 5 árin þrátt fyrir það. Hafði Benedikt Jóhannesson þáverandi fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, flokksins sem Þorgerður Katrín nú leiðir, sagt í Viðskiptablaðinu að hann vildi að framleiðslustyrkir yrðu afnumdir.

Stikkorð: fjáraukalög bændur Sauðfé