Nox Medical hagnaðist um 501 milljón króna á síðasta ári og dróst saman um 18% frá fyrra ári, þó aðallega vegna þess að árið áður féll til einskiptissöluhagnaður. Þá velti félagið nærri þremur milljörðum króna á síðasta ári og jókst veltan um 8% frá fyrra ári.

Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, segir rekstur félagsins í fyrra hafa gengið vel, þrátt fyrir heimsfaraldur og þær verulegu áskoranir sem honum tengdust.

Óhætt er að segja að árið 2020 hafi verið viðburðaríkt hjá Nox Medical. Um var að ræða fyrsta heila rekstrarárið eftir samruna Nox Medical og bandaríska systurfélagsins FusionHealth undir merkjum Nox Health. Þar að auki lauk félagið 10 milljóna dala hlutafjáraukningu er framtakssjóður í rekstri Alfa Framtaks bættist í hlutahafahópinn. Nox Health- samstæðan velti samtals ríflega 5,3 milljörðum króna í fyrra.

Fyrr á þessu ári voru fimmtán ár síðan hópur verkfræðinga stofnaði Nox Medical, með það að markmiði að breyta og bæta tækni sem notuð er af læknum til að greina svefnvanda. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og bendir Pétur á að í dag sé Nox Medical leiðandi á sínu sviði í heiminum.

„Meira en 10 milljónir manna um allan heim hafa fengið greiningu á svefnvanda sínum þar sem lausnir Nox Medical koma við sögu. Framtíð félagsins er björt og verkefnið ærið; að bæta svefnheilsu mannkyns. Það er vissulega metnaðarfullt markmið, en með þann einvala mannauð sem Nox hefur á að skipa eru okkur allir vegir færir og tækifærin óendanleg," segir Pétur.

Endurgreiðslan vanmetið tól

Pétur þakkar aðgerðum stjórnvalda fyrir að Nox gat blásið til sóknar á síðasta ári þrátt fyrir faraldurinn. Þar vísar hann til hækkunar á endurgreiðsluhlutfalli rannsókna- og þróunarkostnaðar úr 20% í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, auk þess sem þak endurgreiðslu hækkaði úr 600 milljónum í 1,1 milljarð króna.

„Þetta gerði okkur kleift að gefa í og leggja enn meiri áherslu á rannsóknir og þróun, þar sem þarna vorum við komin með ákveðinn fyrirsjáanleika," segir Pétur. „Við gátum því hert róðurinn og ráðið inn fleira fólk. Í upphafi faraldursins störfuðu 55 hjá Nox hér á landi en í dag erum við 75. Meginþunginn í okkar starfsemi er fjárfesting í rannsóknum og þróun tæknilausna sem skila tekjustraumi í framtíðinni. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar skiptir nýsköpunarfyrirtæki sem leggja mikið kapp á rannsóknir og þróun tæknilausna verulega máli," segir hann og bætir við að stjórnvöld þurfi að líta á hækkun endurgreiðsluhlutfallsins sem fjárfestingu til framtíðar, í stað þess að líta á hækkunina sem tímabundið Covid-úrræði.

„Endurgreiðsla á rannsókna- og þróunarkostnaði er eitthvert öflugasta tól sem þjóðríki hafa í sinni verkfærakistu til þess að hvetja fyrirtæki til þess að sækja fram, efla sína starfsemi og festa rætur innan þess þjóðríkis þar sem þetta fyrirkomulag er við lýði. Ég held að fólk átti sig ekki almennt á mættinum sem þetta tól býr yfir en það getur orðið hornsteinn áframhaldandi uppbyggingar á hátæknifyrirtækjum hér á landi."

Pétur horfir björtum augum til framtíðar og reiknar með áframhaldandi vexti fyrirtækisins á yfirstandandi ári. „Við erum að sjá vöxt á fyrri hluta þessa árs frá sama tímabili í fyrra. Hefðbundinn rekstur viðskiptavina okkar sem leggja áherslu á innlögn sjúklinga er í hálfgerðu frosti vegna faraldursins og því ekki mikil ný fjárfesting innan þeirra raða, en heimamælingar vega það upp og gott betur. Ég tel að Nox Healthsamstæðan hafi alla burði til þess að halda áfram að vaxa á þessu ári. Það er búið að fjárfesta mikið í innviðum og tækni fyrirtækisins til þess að stækka það á báðum endum, hér á Íslandi og í Bandaríkjunum, til þess að geta fært út kvíarnar og aðlagað þessa lausn betur að ólíkum þörfum kaupenda."

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .