Gæði ríkisútgjalda og rekstrarumhverfi fyrirtækja þarfnast verulegra umbóta ef það á að treysta á bata í ríkisfjármálum samhliða auknum hagvexti. Þetta segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins um fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar.

SA leggur fram þrjár áherslur í umsögn sinni. Í fyrsta lagi eiga íslensk stjórnvöld að setja stóraukinn kraft í markvisst endurmat útgjalda til að tryggja tilætluðum árangri fjárveitinga. Þannig má tryggja gæði ríkisútgjalda.

Í öðru lagi leggur SA til að lækkun tryggingagjalds verði framlengt og að tillögum OECD, um aðgerðir til umbóta á regluverki í t.d. bygginariðnaði og ferðaþjónustu, verði fylgt eftir. SA bætir við að launakostnaður hafi þróast úr takti við verðmætasköpun og styðja þurfi við atvinnulífið til að öflugur hagvöxtur verði að veruleika.

Í þriðja lagi telur SA nauðsynlegt að umgjörð kjarasamningagerðar sé bætt til að draga úr samfélagskostnaði. Í umsögninni bera samtökin saman fjölda kjarasamninga á Íslandi við Norðurlöndin og er fengið út að kjarasamningar hérlendis væru á bilinu15-30 í stað 330 ef fjöldi samninga miðað við höfðatölu væri sá sami og á Norðurlöndum. „Mikilvægar umbætur á vinnumarkaðslíkaninu eru til þess fallnar að stuðla að skilvirkari kjarasamningagerð, launahækkunum í takti við verðmætasköpun og heilbrigðari vinnumarkaði, öllum til hagsbóta," segir í umsögninni.

Skortir aðhald í ríkisfjármálin

SA segir vanda ríkisrekstrar þríþættan. Í umsögninni segir að í ljósi þeirrar framleiðsluspennu sem framundan er í hagkerfinu strax á næsta ári hljóti að vera rými fyrir hagræðingar í ríkisrekstrinum. „Ef ekkert er að gert verður áframhaldandi ójafnvægi í ríkisrekstri sem mun hafa í för með sér ósjálfbæra skuldasöfnun.

Í umsögninni segir að hið opinbera leiði launaþróun í landinu og standi fyrir fjölgun starfa á kostnað atvinnulífsins. Þannig geti ósjálfbær fjölgun opinberra starfa haft ruðningsáhrif á almennan vinnumarkað og skert hagvaxtargetu. Auk þess segir að regluverk hérlendis sé meira íþyngjandi en víðast annars staðar.

Að lokum segir SA að fámenn stéttarfélög og óskilvirk kjarasamningagerð einkenni íslenskan vinnumarkað. „Ríkissáttasemjari á Íslandi hefur ekki þau úrræði sem sáttasemjarar í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð hafa til að tengja hópa saman eða fresta aðgerðum. Slík úrræði eru mikilvægur þáttur í stöðugleika á norrænum vinnumarkaði.“ segir í umsögn SA.