Atlantsolía hefur frá og með deginum í dag bætt við einni stöð þar sem boðið er upp á sama verð og á stöð félagsins í Kaplakrika. Á þeirri stöð hefur verið boðið upp á eitt lægsta eldsneytisverð landsins undanfarið ár. Um stöð félagsins á Sprengisandi er að ræða.

Sé litið á verð dagsins í dag þá er bensínlítrinn í Kaplakrika nú á 211,40 krónur og lítrinn af dísil tæpum tíu krónum ódýrari. Sé það verð borið saman við aðrar stöðvar á höfuðborgarsvæðinu má sjá að það er um tuttugu krónum ódýrara en annars staðar. Þar er bensínstöð Costco tekin út fyrir sviga en lítrinn þar er um krónu ódýrari. Þó þurfa viðskiptavinir að eiga meðlimakort í Costco sem kostar um 5 þúsund krónur á ári.

„Viðtökurnar við verðlækkuninni í Kaplakrika hafa verið frábærar og nú tökum við næsta skref og bjóðum lægsta eldsneytisverð landsins án skilyrða á stöðinni okkar við Sprengisand,“ segir Rakel Björg Guðmundsdóttir, markaðsstjóri Atlantsolíu.

Viðskiptavinir Atlantsolíu fá áfram afslátt af eldsneyti með dælulykli á öllum öðrum stöðvum Atlantsolíu en í Kaplakrika og á Sprengisandi munu allir fá sama eldsneytisverðið, án afsláttar.