*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 12. mars 2020 13:38

Bæta við fraktflugi eftir þörfum

Icelandair Cargo hyggst bæta við aukaflugi ef þörf krefur vegna flugbanns í farþegaflutningum.

Ritstjórn
Vél Icelandair Cargo að hefja sig til flugs, en Gunnar Már Sigurfinnsson, framkvæmdastjóri þessa dótturfélags Icelandair, að neðan, segir félagið halda fraktflugi til Bandaríkjanna ótrautt áfram þrátt fyrir bann í farþegaflutningum.
Aðsend mynd

Gunnar Már Sigurfinnsson framkvæmdastjóri Icelandair Cargo segir að félagið muni tryggja fraktflug á fiski áfram til Bandaríkjanna þrátt fyrir boðaðar takmarkanir í farþegaflugi að því er Fiskifréttir segja frá.

Segir hann að félagið muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda markaðsstöðu fersks fisks frá Íslandi á mörkuðum Norður Ameríku, þar með talið með aukaflugi á fraktflugvélum.

„Nákvæmlega hvernig það verður útfært veit ég ekki akkúrat núna, en við höfum leiðir og munum nýta okkur þær. Þessi plön eru til endurskoðunar reglulega í allan dag og eins lengi og þarf,“ segir Gunnar Már, en eins og staðan er í dag fer stór hluti fraktflugsins fram með farþegaflugvélum.

„Það er opið fyrir fraktflug og við munum halda ótrauð áfram að flytja fisk til N-Ameríku þrátt fyrir takmarkanir í farþegaflugi. Ekki allir flugvellir munu loka fyrir farþegaflug og við munum leggja okkur fram við að halda áætlun þar sem við getum. Við bregðumst svo við með aukaflugi á fraktflugvélum ef þarf.“