*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 28. júní 2021 17:22

Bætt við sig 900 milljóna hlut í ÍSB

Frá því að hlutafjárútboð Íslandsbanka lauk hefur Gildi lífeyrissjóður bætt töluvert við hlut sinn í Íslandsbanka.

Ritstjórn
Íslandsbanki var skráður á markað þann 22. júní síðastliðinn.
Eyþór Árnason

Frá 15. júní síðastliðnum, við lok hlutafjárútboðs Íslandsbanka, hefur Gildi lífeyrissjóður bætt við sig 0,45% hlut í bankanum og á nú í heildina 2,75% samkvæmt uppfærðum hluthafalista í Íslandsbanki yfir hluthafa með yfir 1% hlut bankanum. Gildi er þriðji stærsti hluthafi bankans á eftir ríkissjóði og Capital World.

Viðbót Gildis samsvarar hátt í 900 milljónum króna hlut miðað við núverandi gengi hlutabréfa bankans og á lífeyrissjóðurinn þar með ríflega 5,4 milljarða króna hlut í bankanum. Bréf bankans hafa hækkað um 25% frá útboðsgenginu.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) og Gildi voru tveir af fjórum hornsteinsfjárfestum í útboðinu ásamt Capital World og RWC en lífeyrissjóðirnir áttu hvor um sig 2,3% í bankanum að loknu útboðinu. 

LIVE hefur bætt við sig um 0,1% hluta á sama tímabili og er nú með 2,4% hlut í bankanum og samsvarar viðbót LIVE frá lokum útboðsins tæplega 190 milljóna króna hlut miðað við núverandi gengi bréfa bankans. Hlutur LIVE í bankanum er tæplega 4,8 milljarða króna virði.

Íslandssjóðir, sjóðstýringafyrirtæki í eigu Íslandsbanka, á 1,11% hlut. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í síðasta tölublaði gætir nokkurrar óánægju meðal sjóðsstýringarfélaga og annarra stofnanafjárfestar að hlutabréfasjóðir í stýringu hjá Íslandssjóðum virðast hafa fengið hærri úthlutun en aðrir verðbréfasjóðir í útboðinu. Tveir sjóðir Íslandssjóða voru einu innlendu verðbréfasjóðirnir á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa bankans að lokinni úthlutunin í útboðinu með 0,4% hlut hvor.

Á föstudaginn greindi Viðskiptablaðið frá því að þjóðarsjóður í Abú Dabí ætti um 0,9% hlut í bankanum, sem er um 1,8 milljarða króna virði, og er þar með orðið einn stærsti hluthafi bankans.