*

fimmtudagur, 29. júlí 2021
Innlent 1. maí 2021 11:05

Bætir stuðning erlendis til muna

Samningur Íslandsstofu við Business Sweden tryggir íslenskum fyrirtækjum mun betri stuðning erlendis.

Júlíus Þór Halldórsson
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir samninginn við Business Sweden marka tímamót.
Haraldur Guðjónsson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir samning Íslandsstofu við systurstofu sína í Svíþjóð, sem tilkynntur var í gær, tímamótaskref í átt að nánara samstarfi Norðurlandanna í utanríkismálum, sem og á öðrum sviðum. Aukin fjölbreytni og umfang útflutnings sé lykilatriði í að tryggja og bæta lífskjör hér á landi.

„Ástæðan fyrir því að við erum rík þjóð er sú að okkur hefur tekist að selja vörur og þjónustu á erlenda markaði, og þannig verður það alltaf meðan land byggist.“

Samningurinn – sem er sá fyrsti sinnar tegundar sem gerður er hér á landi – muni tryggja íslenskum fyrirtækjum mun betri stuðning á erlendum mörkuðum en áður hafi verið hægt að bjóða þeim.

„Við erum með ræðismannakerfi og þar eru mjög hjálplegir einstaklingar, en það er stór munur á því og að hafa þjónustu sem þessa. Frændur okkar og vinir, Svíar, eru mjög framarlega á þessu sviði. Business Sweden er um fjörutíuföld Íslandsstofa. Þetta er því mikið gleðiefni.“

Gæðaþjónusta á hagstæðu verði
Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, segir samstarfið ekki aðeins opna á þjónustu á fleiri mörkuðum en áður, heldur bæta þá þjónustu sem í boði sé. „Þetta snýst um dýpt þjónustunnar ekki síður en svæðin sem hún er veitt á. Íslenska utanríkisþjónustan er vissulega kná, en hún er ógnarsmá. Þetta fer af stað strax, en það verður ákveðin lærdómskúrfa í því fyrir íslensk fyrirtæki að læra að nýta sér þessa þjónustu. Ég held að þetta geti haft mjög miklar breytingar í för með sér vegna þess að þetta opnar dyr sem okkur hafa ekki verið opnaðar áður.“

Íslensk fyrirtæki munu, rétt eins og þau sænsku, greiða fyrir þjónustuna, en Pétur segir verðið afar hagstætt. „Þarna er um gæðaþjónustu að ræða á mjög góðu verði. Sænsk fyrirtæki nota þetta í stórum stíl, en þau væru tæplega að gera það nema þetta væri þess virði.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.