Summit Heliskiing er nýtt ferðaþjónustufélag sem, líkt og nafn félagsins gefur til kynna, sérhæfir sig í þyrlu- og fjallaskíðaferðum á Tröllaskaga á Norðurlandi. Jóhann Friðrik Haraldsson, framkvæmdastjóri Summit Heliskiing, segir að hjá fyrirtækinu gefist skíðaáhugafólki tækifæri til að upplifa einstaka náttúru og ósnertar brekkur í fjölbreyttu landslagi.

„Við vinnum með Norðurflugi, reynslumestu íslensku þyrluskíðaþjónustunni, og tryggjum þannig öryggi og þægindi viðskiptavina okkar.“

„Við erum tvenn hjón sem stöndum að Summit Heliskiing. Auk mín og konu minnar, Bryndísar Haraldsdóttur, eru það Arnar Þór Árnason og Ólöf Ýrr Atladóttir, eigendur Sóta Travel og Sóta Lodge, sem standa að fyrirtækinu.

Við höfum tengst gegnum skíðaæfingar barnanna okkar hjá Ármanni, en í eigendahópnum er samankomin mikil reynsla af ferðaþjónustu, skíðamennsku og fyrirtækjarekstri,“ segir Jóhann spurður um eignarhald nýja ferðaþjónustufyrirtækisins.

Rökrétt skref

Sem sakir standa sé Summit Heliskiing hjáheiti ferðaskrifstofunnar Sóti Travel. „Summit Heliskiing er að hefja rekstur núna í vor og okkur þótti rétt að að nýta söluumhverfi Sóta Travel á meðan við erum að móta reksturinn áfram. Því skráðum við Summit Heliskiing sem hjáheiti Sóta Travel. Með þessu náum við samlegðaráhrifum, en ekki síst samhæfingu í rekstri og markaðsskilaboðum og getum samnýtt starfsfólk.

Rekstrarstjóri Sóta Travel, Gestur Þór Guðmundsson, er þannig öflugur liðsmaður Summit Heliskiing og við erum samhent í að leggja okkar af mörkum til að efla ferðaþjónustu á Norðurlandi,“ segir Jóhann.

Að sögn Jóhanns verður Summit Heliskiing fjórða félagið sem mun bjóða upp á þyrluskíðaferðir á Tröllaskaganum. „Tröllaskaginn er víðfeðmur og á bara eftir að vaxa sem þyrluskíðasvæði. Í þyrluskíðamennsku er ekki síst mikilvægt að tryggja gæði vöruframboðs með því að aðilar sem starfa innan sama landshluta eigi gott samtal um ferðatilhögun, þannig að aðilar séu ekki að fljúga og skíða á sama stað.“

„Það var rökrétt skref fyrir okkur, eftir að við stofnuðum Sóta í fyrra, að stíga fleiri skref inn í þennan heim vetrarafþreyingargeira,“ segir fyrrnefnd Ólöf Ýrr, sem gegnir stöðu stjórnarformanns hjá Summit Heliskiing.

. Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Minnihlutaeigandi í Stofnfiski krefst þess að reglum um minnihlutavernd verði beitt til að fella ákvarðanir hluthafafundar úr gildi.
  • Sveinn Andri Sveinsson og DataCell tókust á í héraðsdómi um gjaldþrotaskiptakröfu þess fyrrnefnda á félaginu vegna vangreiddra reikninga í tengslum við WikiLeaks-málið.
  • Hugbúnaðarfyrirtæki hefur fest kaup á ráðandi hlut í gagnavinnslufyrirtæki sem áður var í eigu verkfræðistofu.
  • Umfjöllun um nýútkomna metsölubók bandarísks sálfræðiprófessors þar sem Davíð Oddsson og Halla Tómasdóttir eru tekin fyrir.
  • Fjallað er um afkomu og áform Alvogen vestanhafs.
  • Fjallað er um nýjustu vendingar í fluggeiranum hér á landi.
  • Heimstúr með Björk Guðmundsdóttur kveikti samskiptaneistann hjá Særúnu Ósk Pálmadóttur, nýjum ráðgjafa hjá KOM ráðgjöf.
  • Týr fjallar um ferðagjafir og atvinnuátak hins opinbera og Óðinn skrifar um ríkiseinokunarverslunina ÁTVR sem snýr öllu á hvolf.