*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Innlent 22. ágúst 2019 17:42

Bætt afkoma Origo

Töluverður viðsnúningur var á rekstri Origo á fyrri helmingi ársins frá sama tíma í fyrra.

Ritstjórn
Finnur Oddsson, forstjóri Origo
Haraldur Guðjónsson

Origo hagnaðist um 138 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs samanborið við 15 milljóna hagnaða á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins á fyrri helmingi ársins nam 351 milljón króna en félagið skilaði 11 milljóna tapi á sama tímabili í fyrra. 

Tekjur félagsins námu 3,5 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi og drógust saman um 6,4% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur á fyrri helmingi ársins námu 7.046 milljónum og lækkuðu um 6,2% frá fyrra ári. Þess ber þó að geta að Tempo er ekki lengur hluti af samstæðureikningi félagsins eftir að Origo seldi 55% hlut í félaginu í nóvember á síðasta ári. 

EBITDA á öðrum ársfjórðungi nam 213 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi og lækkaði um 22 milljónir milli ára. 

Í tilkynningu vegna uppgjörsins er haft eftir Finni Oddsyni forstjóra Origo:

„Rekstur Origo á fyrri árshelmingi 2019 gekk ágætlega miðað við aðstæður, betri en á síðasta ári, en þó heldur undir væntingum. Afkoma af hugbúnaðartengdri starfsemi hefur verið góð að undanförnu og hefur vægi hugbúnaðarlausna verið markvisst aukið í rekstri Origo með áherslu á þróun og fjárfestingu á því sviði.  Lakari afkoma hefur verið að rekstrarþjónustu og sölu á notendabúnaði en við höfum leitast við að auka hagræði í öllum okkar rekstri, m.a. með útvistun afmarkaðra verkefna og aukinni sjálfvirknivæðingu í eigin starfsemi og fyrir viðskiptavini okkar. Þeirri vegferð verður haldið áfram.

Þegar horft er til afmarkaðra þátta í starfsemi Origo, þá hefur heldur hægt á búnaðarsölu eftir því sem liðið hefur á árið og spilar óvissa um efnahagshorfur þar eflaust inn í.  Fyrirtæki og einstaklingar virðast vera meira hikandi við stærri fjárfestingar sem hefur bein áhrif á bæði vörusölu og framlegð, en launakostnaður hefur hækkað m.v. sama tímabil í fyrra.  Nýleg aðkoma okkar að Tölvuteki mun treysta mikilvæga söluleið fyrir PC notendabúnað til einstaklinga og gerir Origo kleift að einbeita sér fyrst og fremst að beinni sölu til fyrirtækja og endursöluaðila.

Það er áfram góð eftirspurn eftir almennri upplýsingatækniþjónustu og rekstri frá Origo, m.a. útvistun grunnþjónustu og stuðning við sérverkefni til að auka sjálfvirkni ferla hjá viðskiptavinum og styðja við stafræna vegferð þeirra. Að sama skapi er mjög góður vöxtur í sölu viðskipta- og hugbúnaðarlausna þar sem áfram er unnið að því að efla vöruframboð og auka fjölbreytni með eigin þróun og ytri fjárfestingum.

Origo keypti allt hlutafé í Strikamerki og CBS (Bus Travel IT) nýverið. Markmið með kaupum á Strikamerki er að styrkja framboð Origo á afgreiðslulausnum, hugbúnaði og vélbúnaði, fyrir verslunar-, þjónustu- og vöruhúsastarfsemi þar sem þróun er hröð og ákall viðskiptavina um aukið hagræði skýrt.  Lausnin Bus Travel IT, sem CBS hefur þróað fyrir hópferða- og afþreyingarfyrirtæki, henta afar vel inn í núverandi lausnamengi Origo fyrir ferðaþjónustufyrirtæki.  Kaupin á CBS styrkja lausnir okkar fyrir ferðaþjónustuna og það er skýr stefna okkar að koma þeim á framfæri utan lands ekki síður en hér á okkar heimamarkaði.

Við lítum björtum augum til framtíðar vegna sterkrar stöðu Origo og með auknum líkum á stöðugleika í íslensku efnahagslífi.  Við munum áfram fjárfesta í vöruþróun til að efla lausnaframboð og stefnum að auknu hagræði í rekstri. Það eru áhugaverð tækifæri í flestum þáttum starfsemi fyrirtækisins, hvort sem horft er til hugbúnaðarlausna, rekstrarþjónustu eða sölu á notendabúnaði og við metum horfur því góðar.“

Stikkorð: Origo