Hagnaður Vodafone á þriðja ársfjórðungi þessa árs nam 502 milljónum króna og jókst um 5% frá því á sama tíma í fyrra.

Í tilkynningu sem félagið sendi í tilefni uppgjörsins kemur fram að fjórðungurinn sé sá besti í sögu félagsins hvort sem litið er til tekna eða hagnaðar.

Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins nam 1.038 milljónum króna og jókst um 26% milli ára. Athygli vekur að hann er nálægt heildarhagnaði síðasta árs sem nam 1.094 milljónum króna. Uppgjörið var í megindráttum í samræmi við væntingar greiningaraðila.

„Félagið hefur verið að auka arðsemi og það er stór bæting á rekstrinum þeirra síðustu tvö árin,“ segir Jóhann Viðar Ívarsson hjá IFS Greiningu.

„Eftir því sem fleiri uppgjör koma í þessa veruna fer maður að trúa því að bætingin sé komin til að vera. Samreksturinn gæti aukið arðsemina enn frekar. Ég held að markaðurinn taki ekki endilega illa í þessa töf sem orðið hefur á honum en það trúa því líklega flestir að þeir hafi þetta á endanum.“

Samrekstur tefst

Til stóð að stofna samrekstrarfélag Vodafone og Nova í kringum dreifikerfi farsímanets 1. október síðastliðinn en við kynningu uppgjörs þriðja ársfjórðungs var greint frá því að því yrði frestað.

„Þetta er ekki þannig að aðilar hafi setið með hendur í skauti heldur er búið að vera að vinna í þessu allan tímann,“ sagði Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, á kynningarfundinum.

Nánar er fjallað um málið í Úr kauphöllinni, fylgirit Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .