Segja má að með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu sé verið að reyna að ná þeim markmiðum sem að var stefnt með lagabreytingu árið 1995, en þá voru fjörutíu ára löng verðtryggð húsbréf fyrst sett á markaðinn. Í frétt Morgunblaðsins frá árinu 1995 er haft eftir Páli Péturssyni, þáverandi félagsmálaráðherra, að Páll sagði að árleg greiðslubyrði af láni til 40 ára yrði 19% léttari en af jafnháu bréfi til 25 ára. Um áhrif á greiðslumat, sagði Páll að ætla mætti að efnalítið fólk stæði frekar undir 40 ára bréfum en til 25 ára.

Þessi breyting var að tillögu nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði í vor til að finna leiðir til að gera húsbréfakerfið sveigjanlegra eins og kveðið er á um í stjórnarsáttmála þá verandi ríkisstjórnar.

Markmiðið með því að bjóða upp á 40 ára verðtryggð lán var með öðrum orðum að bjóða efnaminna fólki – og þá væntanlega yngra fólki – kost á að taka lán með léttari greiðslubyrði en var á þeim 25 ára lánum sem þá voru ráðandi á markaðnum. Svo fór hins vegar að í stað þess að nýju lánin færu til þessa efnaminna fólks tóku nær allir húsnæðiskaupendur nýju lánin.

Um helmingur fellur undir undantekningu

Með breytingunum sem kynntar voru af forsætis- og fjármálaráðherrum, þeim Sigurði Inga Jóhannssyni og Bjarna Benediktssyni, fyrr í vikunni er gert ráð fyrir því að verðtryggð neytendalán með jafngreiðslufyrirkomulagi, þar á meðal íbúðalán, verði almennt ekki til lengri tíma en 25 ára, en á því eru undantekningar. Sé lántaki yngri en 35 ára má lánið vera til 40 ára, sé hann 35-39 ára má það vera til 35 ára og sé hann 40-44 ára má lánið vera til 30 ára. Þá eru undantekningar varðandi tekjur lántaka og lánshlutfall.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .