Auglýsingaherferð ríkisskattstjóra um að frestur félaga til að skila ársreikningum sé liðinn hefur leitt til betri skila, að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar ríkisskattstjóra. Að undanförnu hefur ríkisskattstjóri birt auglýsingar í blöðunum þar sem skorað er á stjórnarmenn fyrirtækja sem ekki hafa skilað ársreikningum fyrir síðasta ár að gera það nú þegar. Skilafrestur rann út 31. ágúst.

Skúli Eggert segir skilin í ár betri en í fyrra og að þau hafi einnig verið betri í fyrra en árið áður. Því hafi orðið töluverð framför á síðustu tveimur árum. Árangurinn sé áberandi bestur í ár, þó enn vanti mikið. Vanskil á ársreikningum geta varðað sekt frá 250 til 500 þúsund krónum.