Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins telur að ein leiðin til að efla traust á Alþingi á nýjan leik felist í bættri lagasetningu á þinginu. „Ég held að það sé samdóma álit allra stjórnmálaflokka að hér þurfi að bæta lagasetningu. Ég hef lagt fram á hverju þingi síðastliðin fjögur ár frumvarp um að stofna við Alþingi lagaskrifstofu Alþingis. Hún hefði það hlutverk að fara í gegnum öll frumvörp áður en þau koma fyrir þingið,“ segir Vigdís sem sér fyrir sér að á skrifstofunni myndi vinna sérfræðihópur lagaprófessora sem færu í gegnum frumvörp og skoðuðu hvort þau stæðust stjórnarskrá eða færu gegn alþjóðlegum samningum sem landið væri bundið af.

Álíka skrifstofur eru reknar á öllum hinum Norðurlöndunum með mjög góðum árangri. Frumvarpið hefur ekki náð í gegn og mun Vigdís leggja þaðfram á ný á haustþingi. Vigdís bendir á að forsvarsmenn vinstristjórnarinnar hafi brugðist við kröfum um bætta lagasetningu með stofnun lagaskrifstofu innan forsætisráðuneytisins árið 2010. Skrifstofan átti að hafa sama hlutverki að gegna. Lagasetningin hafi hins vegar ekki batnað enda eftirlitshlutverkið komið til framkvæmdarvaldsins og pólitískur vilji því haldið áfram að birtast í frumvörpum þáverandi ríkisstjórnar sem hafi notað tækifærið til að koma stefnumálum sínum áleiðis.

„Þetta gengur einfaldlega ekki lengur. Slök lagasetning hefur svo mikinn kostnað fyrir samfélagið í för með sér vegna réttaróvissu og tekur til sín svo mikið fjármagn. Löggjafinn á að geta sett svo góð lög að helst þurfi ekki að takast á um þau fyrir dómstólum,“ segir Vigdís með þunga í röddinni. Hún nefnir að á síðasta kjörtímabili séu það lög um gengismál sem kennd eru við Árna Pál Árnason sem séu dæmigerð fyrir slaka lagasetningu.Hefði lagaskrifstofa Alþingis verið komin á laggirnar þá hefði frumvarpið verið stöðvað, það sent aftur í ráðuneytið með þeim orðum aðvanda þyrfti betur til verka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .