Erfiðlega gengur að manna störf víðs vegar um heiminn, nú þegar efnahagslífið er á batavegi, þrátt fyrir hátt atvinnuleysi. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans um vinnumarkaðinn.

Bent hefur verið á rausnarlegar atvinnuleysisbætur sem rót vandans og sagði Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, í gær að illa gengi að ráða í störf þrátt fyrir gífurlegt atvinnuleysi hér á landi . Sagði hann að lítill áhugi virtist vera á þeim störfum sem væru í boði og að atvinnuleysisbætur væru of háar. Þá vildi hann einnig aukið eftirlit með atvinnuleysisbótaþegum.

Heildarlaun verkafólks voru um 573 þúsund krónur að meðaltali á mánuði árið 2019 og má búast við því að þau verði um 670 þúsund nú á miðju ári. Til samanburðar eru atvinnuleysisbætur um 307 þúsund krónur og hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta um 473 þúsund krónur á mánuði. Samsvarar þetta því að atvinnuleysisbætur eru um 55% af heildarlaunum verkafólks og hámarkstekjutengdar atvinnuleysisbætur eru um 70% af heildarlaunum.

Í hagsjánni er bent á að tekjutap vegna atvinnuleysis sé verulegt, jafnvel fyrir þá sem eru í neðri þrepum launastigans. Það geti því ekki talist líklegt að atvinnuleysisbætur séu það háar að þær aftri fólki að taka þeim störfum sem eru í boði og að aðrar ástæður séu líklegri, þar á meðal að fólk treysti því ekki að faraldrinum sé að ljúka.