Karlmaður á þrítugsaldri á rétt á bótum úr lögboðinni slysatryggingu ökumanns að einum þriðja þrátt fyrir að hafa verið undir áhrifum áfengis, amfetamíns og kókaíns við aksturinn. Þetta fellst í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli mannsins gegn Sjóvá.

Umrætt slys átti sér stað í byrjun apríl 2017 en þá var Toyota Land Cruiser bifreið ekið um Bæjarháls. Þar var fyrir götusópur að störfum, á um þriggja kílómetra hraða á klukkustund með blikkandi ljós, sem kom ökumanni jeppans á óvart. Náði hann ekki að stöðva í tíma og ók nokkuð harkalega á götusópinn.

Ökumaður götusópsins hringdi á Neyðarlínuna og leit síðan aftur fyrir sig en þar sá hann að jeppinn „var alveg í köku“. Í bílstjórasætinu sat maður sem var stefnandi þessa máls og var hann meðvitundarlítill. Ökumaður sópsins reyndi að ná sambandi við hann og rankaði hann þá við sér. Sagði hann að annar maður hefði ekið bílnum og hlaupið á brott eftir að slysið varð.

Lögreglumenn sem komu á staðinn tóku það ekki trúanlegt að annar ökumaður hefði ekið bifreiðinni. Var sá fluttur á slysadeild og gert að áverkum hans. Samtímis var tekið úr honum blóðsýni sem sýndi amfetamín, kókaín og vínanda í blóði. Framburður mannsins unga var síðan misvísandi á slysadeildinni. Við lækni á bráðamóttöku hafði hann sagt að hann hefði ekið bifreiðinni en hjá lækni á dagdeild var hann orðinn farþegi.

Umræddur götusópur skemmdist talsvert í óhappinu og bætti Sjóvá, tryggingafélag jeppans, það tjón. Félagið gerði síðan endurkröfu á ökumann jeppans þar sem hann hafði ekki verið í neinu ástandi til aksturs á þeim tíma sem slysið varð. Fyrir endurkröfunefnd byggði drengurinn, sem var 21 árs þegar slysið varð, á því að hann hefði ekki ekið bifreiðinni en til vara að rétt væri að lækka kröfuna með tilliti til félagslegra aðstæðna hans. Nefndin féllst á hið síðarnefnda og var krafa Sjóvá lækku, úr 1,8 milljónum króna í 450 þúsund krónur.

Lán að ekki fór verr

Í málinu nú krafðist maðurinn aðallega bóta úr lögbundinni ábyrgðartryggingu ökumanns bifreiðarinnar en umræddur jeppi hafði verið í eigu föður hans. Til vara var farið fram á viðurkenningu á rétti til bóta úr lögbundinni slysatryggingu ökumanns.

Í niðurstöðu dómsins var aðalkröfunni hafnað. Sagði að skýrsla lögreglu hefði getið þess að talsvert blóð hefði verið á loftpúða ökumanns en ekkert farþegamegin þrátt fyrir það að höggið hefði komið hægra megin á bifreiðina. Þá þótti ótrúlegt að farþegi í framsæti hægra megin hefði getað kastast yfir í bílstjórasætið en þar sat maðurinn þegar ökumaður götusópsins kom að honum.

Hvað varakröfuna varðar sagði dómurinn að ökumaðurinn hefði komið sér sjálfviljugur í það ástand sem hann var í og að hann hefði þrátt fyrir það ákveðið að aka bifreiðinni. Í því hefði falist stórkostlegt gáleysi.

„Ummerki á Land Cruiser-bifreiðinni sýna að henni var ekið af allnokkru afli á götusópinn [...]. Þetta var árla morguns og lítið farið að birta af degi. Götusópurinn var hins vegar gulmálaður og ók löturhægt með blikkandi ljósum, meðal annars tveimur á þaki og tveimur á afturhlutanum. Maður með lágmarksathygli hefði því átt að veita sópnum athygli í tæka tíð. Jeppabifreiðinni var því, hvað sem öðru líður, ekið óvarlega og ekki í samræmi við aðstæður. Þar fyrir utan var [ökumaðurinn] ekki í bílbelti við aksturinn,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Að mati dómsins var það „forsjóninni einni fyrir að þakka“ að ekki hlaust meira tjón af akstrinum en raun bar vitni. Rétt er að geta þess að sakamál var ekki höfðað vegna málsins þar sem möguleg refsing vegna þess fyrndist í meðförum lögreglu.

Hafði skilið við fyrra líferni

Þrátt fyrir þetta taldi ökumaðurinn að hann ætti rétt á fullum bótum úr slysatryggingu ökumanns. Byggði hann meðal annars á ungum aldri sínum en dómurinn féllst ekki á það. „Menn á tuttugasta og fyrsta ári eru fullorðnir“ fullyrti dómari málsins.

„Dómurinn telur að líta megi til þess að [ökumaðurinn] tók sig að lokum á og breytti líferni sínu,“ segir í niðurstöðunni. Var vísað til þess að hann hefði farið í meðferð og síðan framhaldsmeðferð. Þá hefði hann einnig farið í nám, væri nú í fastri vinnu og hefði sagt skilið við neysluvini sína frá fyrri árum.

„Dómurinn dregur ekki úr því að háttsemi [ökumannsins] var stórhættuleg og ljóst að mun verra líkamstjón og jafnvel mannslát hefði getað hlotist af henni. Engu að síður telur dómurinn að líta verði svo á að að atvikið hafi orðið á skammvinnu tímabili þegar [ökumaðurinn] hafði algerlega misst tökin á lífi sínu, en nú hafi hann tekið sig verulega á og sýnt að hann hafi sagt skilið við fyrra líferni,“ segir í niðurstöðunni.

Réttur til bóta úr slysatryggingunni var því viðurkenndur en hann skertur að tveimur þriðju hlutum vegna þess gáleysis sem ökumaðurinn sýndi. Málskostnaður milli aðila var felldur niður en gjafsóknarkostnaður ökumannsins, 750 þúsund krónur, greiðist úr ríkissjóði.