Ólafur Arnalds er flestum þeim kunnugur sem fylgjast vel með íslensku tónlistarsenunni. Hann hefur rutt sér rúms sem tónskáld og hefur nýverið notið mikillar hylli fyrir tónlist sem hann hefur samið fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti. Til að mynda hlaut Ólafur BAFTA-verðlaunin, fyrir frumsamda tónlist í þáttunum Broadchurch. Hann hefur einnig gefið út fjöldann allan af frumsömdum plötum og efni.

Aðspurður um það hver helsti munurinn sé á því að semja tónlist fyrir sjónvarpsþætti og kvikmyndir annars vegar og að gefa út eigin plötur hins vegar, segir Ólafur muninn helst liggja í því að tónlistin í sjónvarps- þáttunum og kvikmyndunum sé samin fyrir einhvern annan en tónskáldið sjálft. „Þú ert með ákveðnar reglur og kassa sem að þú þarft að láta tónlist passa inn í. Handritið, tilfinningarnar í þættinum og annað spila inn í, og stundum jafnvel skoðanir einhverra misvitra fjárfesta,“ segir Ólafur.

Hann bætir við að frelsið sé þar af leiðandi takmarkað. „Það þýðir þó ekki endilega auðveldara. Það að reyna að passa inn í einhvern ramma hjálpar til við að koma einhverju góðu af stað. Ég hef oft átt í mjög góðu samstarfi við leikstjóra og hef fengið góðar hugmyndir sem ég hefði ekki endilega fengið, ef ekki væri fyrir þessar forskriftir. Þetta leiðbeinir þér í að leita aðeins dýpra til þess að geta verið skapandi. Maður þarf að vera enn meira skapandi til að geta starfað innan þessarar formfestu,“ bætir hann við.

Meira upp úr þessu að hafa

Ólafur segir að algengt sé að tónlistarmenn sjái tónsmíðar fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem leið til tekjuöflunar. „Það er meira upp úr þessu að hafa þannig séð, það fer reyndar eftir hve mikið af plötum þú selur. Þó að þú sért nokkuð vinsæll á Íslandi er maður kannski að selja 3.000 plötur og ef maður er svolítið vinsæll á heimsvísu er maður kannski bara að selja 50.000 plötur. Ef staðan er sú þá er miklu meira upp úr kvikmynda- og sjónvarpsþáttatónlist að hafa,“ tekur hann fram. Hann bætir því við að margir, þá sér í lagi í auglýsingabransanum, séu ekki þar af einskærum metnaði.

Ólafur varð jafnframt var við það hversu mikill stökkpallur það var að semja tónlistina í Broadchurch. „Ég sá það hjá mér eftir að ég gerði tónlistina fyrir fyrstu seríuna af Broadchurch. Ég var að gefa út plötu á sama tíma og allt í einu seldi ég tvöfalt meira af þeirri plötu en plötunni á undan. Ég held að það sé að miklu leyti að þakka tónlistinni sem ég var að gera fyrir sjónvarpsþáttinn. Fólk hefði ekki endilega hlustað á svona tónlist — ef henni hefði ekki verið troðið ofan í kokið á því í sjónvarpsþáttunum,“ tekur hann fram. „Ég fékk talsverða athygli eftir að ég vann BAFTA-verðlaunin og jafnframt var fullt af gluggum tækifæra sem opnuðust við það. Það var mjög óvænt. Þetta eru náttúrlega bresk verðlaun, þannig að það er frekar óvenjulegt að fólk frá öðrum löndum fái þau. Þegar ég var tilnefndur bjóst ég alls ekki við að þau myndu fara til mín. Þetta var ótrúlega mikill heiður og gaman að vera valinn,“ segir Ólafur.

Ítarlegt viðtal við Ólaf Arnalds er í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér .