Landsmenn munu verja yfir 300 milljónum króna í jólatónleika í ár sé miðað við verð í miðasölu en þá er velta jólatónleikaflóðsins eins og gefur að skilja mun hærri. Eins og landsmenn hafa orðið varir við er nokkuð úrval af jólatónleikum og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi sem á annað borð vilja sækja jólatónleika.

Baggalútur er eini tónleikahaldarinn sem fjölgar jólatónleikum á milli ára. Í fyrra hélt Baggalútur ferna tónleika í Háskólabíó og tvenna í Hofi á Akureyri. Gert var ráð fyrir sama fjölda í ár en nú hafa bæst við fimmtu tónleikarnir í Reykjavík.

Þrátt fyrir að miðaverð á tónleika Baggalúts hafi hækkað um 13% á milli ára seldist hratt upp á þá fjóra tónleika sem auglýstir voru og þeim fimmtu var því bætt við.

Ætla má að heildartekjur Baggalúts af jólatónleikahaldi í ár nemi um 32,6 milljónum króna og hækki um 8,6 milljónir króna á milli ára.

Nánar er fjallað um tekjur og veltu af jólatónleikum þetta árið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Í prentútgáfu Viðskiptablaðsins er tekið fram að hér er aðeins miðað við tekjur af sölu aðgöngumiða en gera má ráð fyrir einhverju magni boðsmiða. Þá fylgir því töluverður kostnaður að halda tónleika, s.s. leiga á sal, leiga á hljóð- og ljósakerfi, auglýsingar, dyravarsla, umsýsla miðasölu, laun tónlistarfólks auk fjölda annarra minni kostnaðarliða. Hér verður ekki reynt að spá fyrir um veltu jólatónleika í heild sinni, með tekjum og kostnaði.