Hagnaður einkahlutafélags sjö liðsmanna skemmtihópsins Baggalúts skilaði 15 milljón króna hagnaði í fyrra og átti félagið þá eignir sem námu 104 milljónum króna. Þetta kemur fram í frétt DV, en eigendur félagsins hafa aldrei greitt sér út arð.

Félagið heldur úti vefsíðu og plötuútgáfu auk sífellt vinsælla jólatónleikahaldi, sem stendur fyrir stærsta hluta tekna fyrirtækisins.

Hagnaðurinn hækkar samfara auknu jólatónleikahaldi

Hagnaður fyrirtækisins var 7,5 milljónum meiri í fyrra en árið 2014, en frá ársbyrjun 2012 hefur félagið skilað jákvæðri afkomu sem nemur alls 32 milljónum króna. Var eigið fé fyrirtækisins, það er eignir þess að frádregnum skuldum, var 43 milljónum í lok síðasta árs.

Á síðustu árum hafa miðar á jólatónleika félagsins selst upp á nokkrum klukkutímum, verða þeir 17 talsins í ár, en þeir voru 16 í fyrra. Skiluðu þeir árið 2013 52 milljónum króna en í nýjast ársreikningi félagsins er ekki gefið upp hversu mikið þeir skiluðu í fyrra. Þá gáfu þeir einnig út plötuna Jólaland.

Ljóst er að vöxturinn hefur verið hraður enda voru tónleikarnir þrettán árið 2014, en fyrstu tónleikarnir voru haldnir í Iðnó á Þorláksmessu árið 2006.

Koma nánast eingöngu saman í desember

Baggalútur er í eigu tónlistarmannsins Braga Valdimars Skúlasonar og sex annarra stofnenda síðunnar baggalutur.is, en í eldra viðtali DV við Braga sem vísað er í, segir hann að félagið muni líklega ekki greiða út arð heldur halda áfram að greiða mönnum góð laun.

„Enda koma menn nánast einungis saman í desember til að halda jólatónleika. Þetta er ekki rekið í neinum öðrum tilgangi og við ætlum svo sem ekki að fara að stofna fasteignafélag alveg strax,“ sagði Bragi Valdimar í samtali við DV á sínum tíma.