Í fyrsta skipti í um fimmtíu ár þurfa franskir bakarar ekki lengur að lúta reglum hins opinbera um hvenær þeir eiga að taka sumarfrí og geta tekið eins mikið frí og þeir vilja í júlí og ágúst. Áður voru í gildi reglur sem voru til þess fallnar að stýra því hvenær bakarar fara í frí svo að hægt væri að ganga að kaupa brauð í bakaríi á hverju einasta svæði í París.

„Parísarbúar eru að upplifa ófremdarástand,“ er haft eftir Rémi Héluin í samtali við Financial Times um málið en hann skrifar blogg um frönsk bakarí. „Margir bakarar hafa ákveðið að loka á sama tíma og það hefur verið algjör skortur á samstillingu þeirra á meðal.“

„Þetta er miklu erfiðara,“ er haft eftir íbúa 12 hverfisins í austurhluta Parísarborgar. „Ég stend sjálfan mig að því að kaupa meira af skornu brauði í matvöruverslunum - og það er ekki einu sinni raunverulegt brauð.“

Aðgerðin er liður í því að draga úr þungu regluverki í franskri vinnulöggjöf en þrátt fyrir hana þurfa franskir bakarar enn að lúta fjölmörgum reglum. Frá frönsku byltingunni árið 1789 þurftu franskir bakarar fyrst að tilgreina hvenær þeir tækju sér frí, fyrst og fremst vegna matarskorts. Frá 1998 hafa verið sérstakar reglur um hvernig deig til baguette-gerðar á að vera bakað á staðnum og allt til ársins 1986 var verð á brauði fast í Frakklandi.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .