Bain Capital hefur eignast 50 prósent hlut í skófyrirtækinu Toms Shoes sem er þekkt fyrir að gefa eitt par af skóm fyrir hvert par sem fyrirtækið selur.

Toms Shoes var stofnað af frumkvöðlinum Blake Mycoskie árið 2006 eftir ferð til Argentínu þar sem hann vann sem sjálfboðaliði við að úthluta skóm.

Hugmyndin á bak við fyrirtækið er mjög einföld fyrir hvert par af skóm sem fyrirtækið selur gefur það börnum í neyð skó. Skórnir hafa orðið mjög vinsælir og hafa notið mikilla vinsælda hjá mörgum þekktum stjörnum. Yfir 25 milljónir skópara hafa selst frá upphafi og 25 milljón verið gefin. Fyrirtækið hefur einnig hafið sölu á gleraugum og sólgleraugum og hefur notað hagnað af sölunni til að bjóða 250 þúsund manns upp á ókeypis augnaðgerðir.

Talið er að fjárfesting Baine um 50 prósent hlut nemi 625 milljónum Bandaríkjadala, eða tæpum 73 milljörðum íslenskra króna.