Bakarameistarinn ætlar að taka þátt í glímunni við verðbólgudrauginn með því að lækka verð í nokkrum vöruflokkum.

Jafnframt mun fyrirtækið draga úr innflutningi, eins og því er frekast unnt, til að hrófla sem minnst við gjaldeyrisforða Íslendinga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bakarameistaranum.

Þá kemur fram að í öllum verslunum Bakarameistarans er byrjað að selja Íslandsbrauð, sem er stórt milligróft brauð, sem kostar 199 krónur. Hinir séríslensku snúðar hafa einnig verið lækkaðir í  verði og kosta nú aðeins 99 krónur. Þá hefur verðið á súpu og brauði með smjöri verið lækkað í 399 krónur.

„Við viljum taka þátt í baráttunni við verðbólguna hér á Íslandi og gerum okkur fyllilega grein fyrir því að ef ekki verður komið böndum á hana án tafar mun það þýða gríðarlega lífskjaraskerðingu fyrir íslensku þjóðina,“ segir Vigfús Kr. Hjartarson, framkvæmdastjóri Bakarameistarans í tilkynningunni.

Þá kemur fram að um leið og dragi úr flökti krónunnar muni fyrirtækið endurskoða alla verðskrá Bakarameistarans til lækkunar.

„Undanfarna daga og vikur hefur verið mikið um hræðsluáróður í fjölmiðlum. Því hefur verið haldið fram að það sé skortur á hveiti í landinu og að allar hillur verslana muni brátt standa auðar. Þetta er einfaldlega ekki rétt,“ segir Vigfús í tilkynningunni og bendir á að ekki sé ástæða til að mála skrattann á vegginn eins og staðan er í dag í þjóðfélaginu.

„Þessar lækkanir okkar skal á engan hátt skoða sem verðstríð við önnur bakarí eða verslanir,“ segir Vigfús í tilkynningunni.

„Við viljum fyrst og fremst ýta við fólki og fyrirtækjum,“ segir Vigfús.

„Það má ekki líta fram hjá því að nú ríður á að fyrirtæki og einstaklingar sýni aðhald og reyni eins og frekast er kostur að draga úr innflutningi.“

Þá kemur loks fram að með þessu vonast forráðamenn Bakarameistarans til þess að sýna gott fordæmi sem megi verða öðrum fyrirtækjum hvatning til þess að skera niður eins og frekast er kostur innflutning á tilbúnum vörum.