Bakarameistarinn ehf., sem er að fullu í eigu Sigþórs Sigurjónssonar, hagnaðist um tæplega 53,1 milljón króna eftir skatta árið 2014. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins.

Hagnaðurinn dróst umtalsvert saman milli ára, eða um 28,5 prósent. Árið 2013 var hagnaðurinn tæpar 73,9 millj­ónir króna. Handbært fé fyrirtækisins jókst um næstum 9,3 milljónir króna, úr 94,9 milljónum í 104,2 milljónir.

Eignir fyrirtækisins jukust úr 327,1 milljón króna í 346,6 milljónir króna. Þá jukust skuldir Bakarameistarans jafnframt úr 179,3 milljónum króna í 195,7 milljónir króna.

Bakarameistarinn rekur sex bakarí á höfuðborgarsvæðinu og var fyrirtækið stofnað árið 1977.