Stjórn Landssambands bakarameistara mótmælir harðlega fyrirhugaðri 800 milljón króna hækkun á vörugjöldum á matvæli sem boðuð er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Vörugjöldin eiga að beinast að sykri í matvælum og eru réttlætt með manneldissjónarmiðum og aðgerðum gegn offitu. Kemur þetta fram á vefsíðu Samtaka iðnaðarins.

Segir þar að litlar líkur séu á að hækkun vörugjalda á sykraðar vörur hafi áhrif á heilsu- eða holdafar landsmanna enda geri ríkisstjórnin ekki ráð fyrir breyttri neysluhegðun heldur miði tekjurnar við óbreytt innkaupamynstur. Auknar álögur á matvæli um 800 milljónir á ári komi hart niður bæði á fyrirtækjum og neytendum.

„Hækkun vörugjalda hlýtur óhjákvæmilega að hækka vöruverð, sem aftur eykur verðbólgu og þar með greiðslubyrði af lánum, bæði heimila og fyrirtækja. Stjórn LABAK skorar á stjórnvöld að draga hugmyndir um hækkun vörugjalda á matvæli til baka og gerir þá kröfu að lagt verði mat á þann kostnað, sem ríki og matvælafyrirtæki verða fyrir vegna vörugjaldskerfisins, og hann borinn saman við tekjurnar sem ríkið telur sig þurfa að hafa af vörugjöldum.“