Félagsmenn í Landssambandi bakarameistara hafa bundist samtökum um að hefja markvissa notkun á íslensku byggi í brauðgerð og bakstur. Í frétt á heimasíðu Samaka iðnaðarins kemur fram að fyrir stuttu gerði Kornax samkomulag við Eyrarbúið ehf. á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum um að dreifa möluðu byggi á almennan markað.

Íslenskt bankabygg, heil byggkorn, hafa hins vegar verið fáanleg í nokkur ár. Þá hefur bjór, bruggaður úr íslensku byggi, að sama skapi verið fáanlegur um nokkurt skeið.

„Þetta eru tímamót í almennri nýtingu íslensks korns til matvælaframleiðslu,“ segir Ragnheiður Héðinsdóttir, forstöðumaður matvælasviðs Samtaka iðnaðarins í fréttinni; „Bakarar hafa mikinn áhuga á að vinna með bændum. Þetta er mikilvægt skref, ekki síst vegna þess að nú skiptir máli að spara gjaldeyri og nýta íslenskt hráefni.“