*

laugardagur, 25. september 2021
Fólk 3. ágúst 2020 19:05

Bakari, bíladella og sveitalífið

Sigurjón Andrésson, nýráðinn markaðsstjóri BL, lét drauminn rætast og flutti í „paradís“ í Flóahreppi í byrjun árs.

Sigurður Gunnarsson
„Ég er bjartsýnn að eðlisfari og hef óbilandi trú á þjóðinni, tækifærunum og auðæfunum," segir Sigurjón.

„Ég elskaði mitt fyrra starf en þegar svona tækifæri býðst þá er að hrökkva eða stökkva. Ég hefði ekki breytt til fyrir hvað sem er,“ segir Sigurjón Andrésson sem mun hefja störf sem markaðsstjóri BL í byrjun september en hann hefur starfað hjá Sjóvá síðastliðin 22 ár, eða frá árinu 1998.

„Ég er í grunninn iðnmenntaður bakari en þegar ég byrjaði hjá Sjóvá var ég fyrst sendur á námskeið til að afla mér vinnuvélaréttinda á lyftara. Þá vorum við með tjónaskoðunarstöð þar sem ég þurfti að flytja til skemmda bíla. Ég náði að vekja athygli á mér í gegnum þetta.“

Síðan þá hefur Sigurjón unnið sem forvarnafulltrúi, verkefnastjóri, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði, kynningastjóri og frá 1. janúar 2008 sem markaðsstjóri Sjóvá. Hann hefur einnig aflað sér gráðu í mannauðsstjórnun frá HÍ, gráðu í verkefnastjórnun frá Juran Institude í Bandaríkjunum og svo lauk hann MBA-námi frá HR árið 2010 samhliða vinnu.

„Þetta er skemmtilegur starfsferill sem maður hefur náð að skapa sér til innan Sjóvá. Það er hægt hjá góðu fyrirtæki sem leyfir fólki að láta ljós sitt skína.“

Á markaðsmálaferli Sigurjóns stendur upp úr ákvörðun Sjóvá árið 2015 um að eignast ánægðustu viðskiptavinina á íslenska tryggingamarkaðnum. Markmiðið var að ná þessu á 100 ára afmæli Sjóvá árið 2018. Þetta tókst ári á undan áætlun.

„Það var tekin ákvörðun eftir hrun um að fara ekki í yfirklór og breyta nafninu á félaginu eða eitthvað slíkt heldur byggja þetta frá grunni. Ánægja og tryggð viðskiptavina byggir ekki á stórri ímyndarherferð heldur með samskiptum við viðskiptavini og okkar á milli daginn langan. Það er dropinn sem holar steininn þegar kemur að ánægju og tryggð. Síðustu fimm árin hafa í raun verið skemmtilegasti tíminn hjá Sjóvá því við höfum verið að uppskera eftir þessa vinnu.“

Sigurjón segist vera með króníska bíla- og mótorhjóladellu. Hann er meðlimur í ferðafélaginu Slóðavinir og lét nýlega af formannsembætti sem hann gegndi í tvö ár.

Eiginkona hans er Margrét Sara Guðjónsdóttir, kennari við Menntaskólann í Reykjavík, og saman eiga þau dæturnar Hrafnhildi Svölu og Heklu Sif. Fjölskyldan flutti í Hvítholt í Flóarhreppi, rétt hjá Selfossi, í byrjun árs.

„Ég ferðast mikið um landið og hef alltaf sótt orku frá náttúrunni. Okkur hefur lengi dreymt um að komast út úr bænum og í byrjun árs létum við drauminn rætast og keyptum litla jörð. Þetta er algjör paradís.“

„Við þurfum að keyra í vinnuna en fyrir bílaunnanda eru ferðirnar á morgnana ákveðin gæðastund. Við fjölskyldan tökum carpool í borgina og leysum málin á leiðinni.“

Sigurjón ásamt Margréti Söru eiginkonu sinni og dætrum þeirra Heklu Sif og Hrafnhildi Svölu

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: BL Sigurjón Andrésson