*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 11. ágúst 2021 18:23

Bakarísmatur beint í bílinn

Skeljungur á nú 38% hlut í Brauð & Co. Opna nýtt bakarí að Laugavegi 180 þar sem m.a. verður boðið upp á lúguafgreiðslu.

Sveinn Ólafur Melsted
Í Næturvaktinni fengu áhorfendur að skyggnast inn í skrautlegt líf bensínstöðvarstarfsmannanna Ólafs Ragnars, Georgs og Daníels. Verslanir hafa verið reknar í rýminu undanfarin ár en nú mun Brauð & Co opna þar bakarí.
Skjáskot

Skeljungur hefur aukið við hlut sinn í Brauð & Co og á olíufélagið nú 38% hlut í bakarískeðjunni. Þetta kemur fram í fjárfestakynningu félagsins sem birt var samhliða uppgjöri 2. ársfjórðungs.

Skeljungur kom upphaflega inn sem nýr hluthafi í Brauð & Co síðasta sumar er félagið gekk frá kaupum á fjórðungshlut í bakarískeðjunni.

Í fjárfestakynningunni kemur jafnframt fram að í haust muni Brauð & Co opna nýtt bakarí að Laugavegi 180. Á umræddri lóð rekur Skeljungur eina af Orku bensínstöðvum sínum. Verður m.a. boðið upp á afgreiðslu í gegnum bílalúgu, sem er nýjung í bakarísrekstri á Íslandi.

Margir landsmenn þekkja eflaust umrætt húsnæði best sem tökustað gamanþáttanna Næturvaktarinnar sem komu út árið 2007 og lifa enn í fersku minni margra.