Viðskiptaþátturinn í dag hefst á umfjöllun um viðskiptasérleyfi, en fjöldi þeirra hefur vaxið verulega hér á landi síðustu ár og áratugi. Emil B. Karlsson hefur tekið saman rit um stofnun og rekstur sérleyfisfyrirtækja en Viðskiptasérleyfi er talin sú aðferða sem algengust er í heiminum þegar fyritæki ákveða að færa út kvíarnar. Emil verður fyrsti gestur þáttarins.

Viðskiptatækifærin leynast víða og ef einhvern dreymir um að eignast bakarí í Noregi - þá getur sá draumur ræst fljótlega - því Óðinn Valsson er að selja bakaríið sitt - það er á Vesturströnd Noregs og á einum vinsælasta ferðamannastaðnum á Vesturströndinni - þangað koma um 500 þúsund ferðamenn á ári. Slegið verður á þráðinn til Óðins og rætt við hann um bakarísrekstur í Noregi.

Það eru spennandi hlutir að gerast á íslenskum hlutabréfamarkaði þessa stundina. Viðræður standa yfir um sameiningu fjárfestingarfélaganna Burðaráss og Kaldbaks og hefur verið lokað fyrir viðskipti með bréf í félögunum í dag vegna þessa. Enn er óvíst hvernig viðræðum lyktar, en Kaldbakur hefur meðal annars keypt 27% hlut í sjálfum sér af KEA á tæpa fjóra milljarða króna.

Atli B. Guðmundsson frá greiningu Íslandsbanka ætlar að spá í spilin með okkur og draga upp mynd af því hvernig sameiginlegt félag muni mögulega líta út.

Við ljúkum þættinum síðan á að kynna okkur netverslunina ShopUSA.is en hún flytur inn bandarískan varning af miklum móð - menn panta á netinu og sækja vöruna til fyrirtækisins í Kópavogi - og meðal þess sem rennur inn í landið í gegnum síðnua í viku hverri eru amerískir bílar. Erling Valur Ingason hjá Shop USA ætlar að segja okkur nánar frá þessu.

Viðskiptaþátturinn á Útvarpi Sögu (99,4) verður endurfluttur kl. eitt eftir miðnætti.