Athugun Samtaka atvinnulífsins á bakgrunni stjórnarmanna í 15 stórum fyrirtækjum á íslenskum hlutabréfamarkaði leiðir í ljós að yfir 95% stjórnarmannanna höfðu reynslu af setu í stjórnum eða reynslu af rekstri fyrirtækis. Reynsla af stjórnun er því grundvallarþáttur þegar kemur að því að skipa í stjórnir fyrirtækjanna segir í frétt SA..

Þar kemur einnig fram að eignarhald ræður einnig miklu en 65% stjórnarmanna í umræddum fyrirtækjum eru sjálfir hluthafar í fyrirtækjunum eða sitja í stjórn fyrir hönd ákveðinna eigenda. Eigendur fjármagns eru því ráðandi í stjórnum fyrirtækja á Íslandi en þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjunum sitja þar án eignatengsla. Menntun stjórnarmanna virðist ekki eins mikilvægur þáttur en í opinberri umræðu hafa margir furðað sig á því að kynjahlutfall í stjórnum íslenskra fyrirtækja hafi ekki jafnast í kjölfar þess að konum með háskólamenntun og konum í ábyrgðarstöðum hafi fjölgað verulega á undanförnum árum.