Ferðaskrifstofa Íslands, FÍ, hefur dregið til baka samrunatilkynningu vegna kaupa félagsins á rekstri Heimsferða og óskar frekari viðræðna um möguleg skilyrði. Fram kemur í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins (SKE) að samrunaaðilar hyggist tilkynna aftur um samrunann á breyttum grunni og „leggja til skilyrði sem eytt geta mögulegum samkeppnishindrunum vegna samrunans“.

Ferðaskrifstofurnar sendu eftirlitinu samrunatilkynningu þann 21. janúar síðastliðinn. SKE segir að rannsókn vegna samrunans hafi verið umfangsmikil. „Vegna sjónarmiða samrunaaðila þurfti m.a. að taka skilgreiningu markaða í málinu til ítarlegrar rannsóknar, s.s. með því að framkvæma könnun á meðal viðskiptavina félaganna.“

Samkeppniseftirlitið birti FÍ og Heimsferðum frummat sitt í andmælaskjali þann 10. júní, þar sem eftirlitið gerði grein fyrir því að samruninn væri skaðlegur samkeppni samkvæmt 17. gr. c samkeppnislaga sem fjallar um markaðsráðandi stöðu fyrirtækja.

Í tilkynningu SKE segir að samrunaaðilar hafi andmælt frummati stofnunarinnar en jafnframt sett fram tillögur að skilyrðum sem SKE mat ófullnægjandi, að undangenginni rannsókn.

„Samkeppniseftirlitið hefur að undanförnu haft til ítarlegrar rannsóknar fyrirhuguð kaup Ferðaskrifstofu Íslands á rekstri Heimsferða. Rannsóknin var á lokastigi en FÍ hefur nú afturkallað samrunatilkynningu sína. Felur afturköllunin í sér að umræddu máli er lokið án ákvörðunar og að samruni FÍ og Heimsferða getur ekki komið til framkvæmda að óbreyttu,“ segir í tilkynningu SKE.

Samkeppniseftirlitið er einnig með kaup ferðskrifstofunnar Nordic Visitor á Iceland Travel frá Icelandair, sem tilkynnt var um í byrjun sumars, til rannsóknar. SKE sendi frá sér tilkynningu þann 12. júlí þar sem óskað var eftir athugasemdum vegna samruna ferðaskrifstofanna.