Ágúst og Lýður Guðmundssyni, löngum kenndir við matvælafyrirtækið Bakkavör, fengu tæpa 8,7 milljarða króna í arð frá Exista á árunum 2005 til 2007 vegna afkomu félagsins á undangengnu ári. Þeir hafa boðið eigendum Bakkavarar 16 milljarða fyrir félagið og undrast menn hvaðan peningarnir koma. Í DV segir að hluthafar Bakkavarar hafi tekið sig saman um að koma í veg fyrir yfirtöku bræðranna á félaginu.

Bræðurnir voru helstu eigendur Exista. Exista var helsti hluthafi Bakkavarar og Kaupþings á árunum fyrir hrun.

Bræðurnir misstu eignarhald sitt á Bakkavör til kröfuhafa eftir hrunið. Fram kom í fréttum Stöðvar 2 og Fréttablaðinu um helgina að þeir hafi leitast við að kaupa félagið af núverandi eigendum 75% hlutafjár. Sjálfir eiga þeir um fjórðungshlut.

Helstu eigendur Bakkavarar að bræðrunum undanskildum eru Arion banki og nokkrir lífeyrissjóðir.

DV tekur málið saman og heldur áfram með frásagnir annarra fjölmiðla í dag. Í blaðinu segir jafnframt að ekki sé loku fyrir það skotið að fyrrverandi samverkamenn Bakkabræðra standi á bak við þá, svo sem Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri bankans.