Þeir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, sem löngum hafa verið kenndir við Bakkavör, krefjast þess að Arion banki endurgreiði félagi þeirra BBR ehf 135 milljónir króna ásamt vöxtum vegna kaupa félagsins á hlutabréfum í Exista. Kaupin gengu í gegn í tengslum við umdeilda hlutafjárhækkun í Exista síðla árs 2008. Við hlutafjárhækkunina skapaðist yfirtökuskylda og keypti BBR hlut Arion banka í Exista fyrir um 135 milljónir.

Við hlutafjárhækkunina keypti BBR hlutabréf Exista fyrir 50 milljarða króna að nafnvirði en greiddi einn milljarða fyrir. Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra úrskurðaði árið 2009 að hlutafjárhækkunin hafi verið ólögmæt. Lýður, sem var stjórnarformaður Exista, var í kjölfarið ákærður við annan mann fyrir brot á hlutafélagalögum og fyrir að hafa skýrt rangt og villandi frá hlutafjárhækkuninni. Lýður var í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. maí síðastliðinn dæmdur til að greiða tvær milljónir króna vegna hlutafjárhækkunarinnar.

Endurgreiðslukrafa BBR gegn Arion banka byggist á þeirri niðurstöðu Fyrirtækjaskrár að hlutafjárhækkunin var ólögmæt. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Búist er við því að aðalmeðferð verði í málinu í haust.