Korkur Invest ehf., félag í eigu Ágústs og Lýðs Guðmundssona Bakkabræðra virðist vera að nýta sér fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands til þess að fjármagna kaup á 25% hlut í Bakkavör. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag en blaðið náði ekki í bræðurna til þess að fá þetta staðfest.

Stjórn Korks Invest hefur samþykkt heimild til að gefa út breytingalegt skuldabréf fyrir allt að fjóra milljarða til tíu ára. Samkvæmt gögnum sem send voru fyrirtækjaskrá er skuldabréfið til tíu ára og fyrsta afborgun í maí 2017. Vaxtagreiðslur hefjast á næsta ári. Ársvextir eru bundnir við árlegan hagnað félagsins, þó að hámarki 5%, að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins.

Tilkynnt var um kaup bræðranna á 25% hlut í Bakkavör fyrir fjóra milljarða á aðalfundi félagsins sem haldinn var í síðustu viku.