Eins og fram kom fyrr í dag hefur BBR ehf. ákveðið að skrifa sig fyrir nýju hlutafé í Exista hf. sem nemur 50 milljörðum hluta.

Í kjölfarið nemur eignarhlutur BBR ehf. og Bakkabraedur Holding B.V., en bæði félögin eru í eigu Ágústs Guðmundssonar og Lýðs Guðmundssonar, samtals um 88% af heildarhlutafé Exista.

BBR ehf. ber því samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti að leggja fram yfirtökutilboð til hluthafa í Exista hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Exista.

Þar kemur fram að í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú ríkja á fjármálamörkuðum og þess að lokað hefur verið fyrir viðskipti með hlutabréf Exista um 9 vikna skeið mun BBR ehf. fara þess á leit við Fjármálaeftirlitið að veitt verði undanþága frá ákvæðum verðbréfaviðskiptalaga um lágmarksverð í yfirtökutilboði.

Þannig mun BBR ehf. óska þess að lagt verði til grundvallar í yfirtökutilboðinu það verð sem BBR ehf. greiðir fyrir hina nýju hluti í Exista hf., „sem jafnframt er hæsta verð sem BBR ehf. og Bakkabraedur Holding B.V. hafa greitt fyrir hluti í Exista hf. á síðastliðnum 6 mánuðum,“ segir í tilkynningunni.

Þannig mun BBR ehf. óska þess að fallið verði frá skilyrðum um að tilboðsverðið skuli að lágmarki vera jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hluta í Exista hf. daginn áður en tilboðsskylda myndaðist eða tilkynnt var um fyrirhugað tilboð.

„Farið verður fram á þessa undanþágu í ljósi þess að lokað hefur verið fyrir viðskipti með Exista síðan 6. október 2008, þannig að síðasta dagslokaverð hlutabréfa Exista hf. gefur vart rétta mynd af verði hlutabréfa félagsins,“ segir í tilkynningunni.