Þegar skráningu Exista í Kauphöll Íslands verður lokið verða bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir, eigendur Bakkabræðra BV, aðaleigendur þriggja af átta stærstu félögunum í kauphöllinni þegar horft er til markaðsvirðis.

Samkvæmt tilkynningu Exista, sem send var út í tilefni kaupanna á VÍS, er sameinað félag metið á um 288 milljarða króna. KB banki er metinn á 520 milljarða og Bakkavör á 105 milljarða. Markaðsvirði félaga þar sem þeir bræður eru ráðandi er því 913 milljarðar króna eða tæplega helmingur af markaðsvirði átta stærstu félaganna í kauphöllinni eins og kemur fram í meðfylgjandi töflu. Lýður Guðmundsson er stjórnarformaður Exista og Bakkavarar en Sigurður Einarsson er sem kunnugt er stjórnarformaður KB banka.

Stærstu félögin í Kauphöllinni*:

KB banki 520.345**
Exista 287.568**
Glitnir 258.193
Landsbanki 243.557
Actavis 222.079
SB 178.177
FL Group 119.136
Bakkavör 105.415**
Samtals 1.934.470

Félög tengd Bakkabræðrum 913.328

*Eftir skráningu Exista. Allar tölur í milljörðum króna króna.
**Tengjast Bakkabræðrum.

Við skráningu Exista mun hluthöfum í félaginu fjölga um 33.000 þar sem stjórn KB banka hyggst leggja það til við hluthafafund að um helmingur eignarhlutar bankans í Exista verði greiddur til hluthafa bankans sem aukaarðgreiðsla en bankinn mun einnig selja hluti í félaginu til fagfjárfesta í tengslum við fyrirhugaða skráningu félagsins í kauphöllina, að því er fram kemur í tilkynningu til kauphallarinnar. Sem gefur að skilja gefur framangreint markaðsvirði ekki neina nákvæma vísbendingu um fjárhagsstöðu þeirra Bakkabræðra vegna þess að markaðsvirði félaganna leggst saman. Líklega gefur helmingshlutur þeirra í Exista skýrasta vísbendingu um eignarstöðu þeirra.

Ítarleg fréttaskýring er um Exista í Viðskiptablaðinu í dag.