Ágúst og Lýður Guðmundssynir greiða 15 milljónir punda, jafnvirðu um þriggja milljarða króna, fyrir fjórðungshlut í Bakkavör. Fram kemur í Markaðnum, fylgiblaði Fréttablaðsins um viðskipti, að lagt verði til á hluthafafundi síðar í mánuðinum að hlutafé Bakkavarar verði aukið um 25% og fái bræðurnir að kaupa það allt. Á móti bræðrunum eiga íslenskir kröfuhafar afganginn. Þeir eru Arion banki, skilanefnd Glitnis og lífeyrissjóðir.

Á móti kaupunum gefa bræðurnir eftir meirihluta í stjórn Bakkavarar.

Í Markaðnum kemur m.a. fram að heildarvirði Bakkavarar er talið vera á bilinu 20 til 40 milljarðar króna. Samkvæmt því myndu Ágúst og Lýður fá fimm til tíu milljarða króna fyrir þann hlut sem þeir eru nú að kaupa á þrjá milljarða króna.