Félag undir stjórn Bakkavararbræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssonar, BV Finance, kom með 463 milljónir króna til landsins í júlí eftir að hafa farið í gegnum fjárfestingaleið Seðlabankans. Sú leið gefur fjárfestum kost á að kaupa krónur með um 20% afslætti. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag.

Þetta er í annað skiptið á skömmum tíma sem þeir bræður flytja fjármagn til landsins en félagið Korkur Invest gaf út skuldabréf fyrr á árinu fyrir 1,5 milljarða eftir að hafa nýtt sér fjárfestingaleiðina.

Til viðbótar við þá bræður þá segir í frétt Morgunblaðsins að fleiri þekktir íslenskir fjárfestar hafi komið með umtalsvert fjármagn til landsins í gegnum fjárfestingaleiðina. Eru nefnd til sögunnar félög í eigu Karls Wernerssonar og Róberts Wessmans. Þau eiga að hafa komið með á þriðja milljarð króna til landsins. Varpar þetta ljósi á þá staðreynd að ýmsir þekktir íslenskir fjárfestar eiga verulegar fjárhæðir á erlendri grund, þrátt fyrir að fjármálastofnanir hafi þurft að afskrifa hjá félögum þeim tengdum háar upphæðir - í sumum tilfellum tugi milljarða.