Þeir Lýður og Ágúst Guðmundssyni hafa sett ítarlega klásúlu um greiðslu vaxta af skuldabréfi þeirra til tíu ára sem gefið var út í tengslum við kaup þeirra á 25% hlut í Bakkavör fyrir fjóra milljarða króna. Samkvæmt því þurfa þeir ekki að greiða neina vexti nema félag bræðranna, Korkur Invest, sem gaf út skuldabréfið hagnist um hundrað milljón krónur eða meira. Engu skiptir hins vegar hversu hagnaðurinn verður, vextirnir sem eru óverðtryggðir fara aldrei yfir 5%.

Bræðurnir kaupa hlutinn í Bakkavör í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans og gaf félag þeirra út skuldabréf vegna þessa.

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um útboðslýsingu skuldabréfsins. Þar segir að skuldabréfaútgáfan hafi verið upp á 1,5 milljarða króna en með heimild til að stækka hana í fjóra milljarða. Afborgarnir af skuldabréfinu hefjast árið 2017 en þá á að greið 20% af höfuðstólnum í þrjú ár. Eftir það á að greiða 15% árið 2021 og 5% árið 2022.

Samkvæmt útgáfulýsingu skuldabréfsins kemur fram að ef hagnaður Korks Invest reynist minni en 100 milljónir í fyrra þurfa bræðurnir ekki að greiða vexti af skuldabréfinu. Ef hagnaðurinn liggur á milli 100 til 150 milljónum fara vextirnir í 1% og 2% ef hagnaðurinn fer upp í 200 milljónir króna. Ef hagnaðurinn fer upp í 300 milljónir króna fara vextirnir í 5% og verða þeir ekki hærri en það.

Í Morgunblaðinu segir að kjörin séu í öllum tlfellum undir markaðsverði.