Félögin GT 1 og GT 2 eiga samanlagðar eignir upp á rúma 1,8 milljarða króna. Félögin eru í eigu Bakkavararbræðranna Ágústar og Lýðs Guðmundssona. Þau voru bæði stofnuð árið 2008 og færðu bræðurnir fasteignir sínar inn í þau sem fjármálaheimurinn stóð á barmi hruns haustið 2008.

Lýður á félagið GT 1 ehf. Inni í félagið færði hann eignarhald á einbýlishúsi við Starhaga í Reykjavík og íbúð við Hagamel. Bókfært virði eigna í félaginu nema tæpum 1,1 milljarði króna og er bókfært eigið fé þess 731 milljón króna. Nánari útlistun á því hvaða eignir eru í félaginu og hvert verðmæti tiltekinna eigna félagsins er kemur ekki fram í síðasta ársuppgjöri félagsins sem skilað var til Ársreikningaskrár í enda september.

Fram kemur í uppgjörinu að félagið tapaði 12,4 milljónum króna samanborið við 4,3 milljóna króna tap árið 2011. Það skýrist að mestu af hærri fjármagnsgjöldum í fyrra en árið 2011.

Bróðir hans Ágúst á svo félagið GT 2. Inn í það færði hann tvo sumarbústaði á Þingvöllum, íbúð í miðbænum og land á Þingvöllum. Það sama á við um félag Ágústar og Lýðs að nánari skýringar er ekki að finna í uppgjörinu hvaða eignir eru í því. Félag Ágústar tapaði 4,5 milljónum króna á síðasta ári miðað við 1,4 milljóna króna tap árið 2011. Eignir félagsins eru bókfærðar á 767,7 milljónir króna. Bókfært eigið fé nam 235,3 milljónum króna um síðustu áramót.

Bæði félögin, þ.e. GT 1 og GT 2, eru skráð á erlenda hluthafa. Eigandi félags Lýðs heitir GT One Trust en Ágústar GT Two Trust. Bæði félögin eru skráð í Bretlandi.