Þeir Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, og bróðir hans Lýður, sem jafnframt hefur um árabil verið stjórnarformaður félagsins, hafa stefnt Inga Frey Vilhjálmssyni, fréttastjóra DV, vegna ummæla hans í leiðara blaðsins í október í fyrra undir yfirskriftinni „Réttlæti er ekki til“.

Leiðarinn birtist í kjölfar kaupa þeirra Ágústar og Lýðs á hlutabréfum í Bakkavör á síðasta ári. Þeir misstu eignarhald sitt á fyrirtækinu um tíma en keyptu 25% hlut aftur á þrjá milljarða króna. Hluturinn var á sama tíma metinn á fimm til tíu milljarða króna. Þeir ráða nú yfir um 40% hlut í Bakkavör á móti lífeyrissjóðum og Arion banka.

Bakkavör var fyrir hrun að stórum hluta í eigu Exista. Exista var svo stór hluthafi í Kaupþingi og var Lýður Guðmundsson stjórnarformaður Exista.

DV greinir frá málinu á vefsíðu sinni og vitnar til þess að bræðurnir telji ýmislegt í skrifum Inga hafa verið ærumeiðandi.. Þá segir að þeir telji markmið skrifanna að „kynda undir andúð í garð þeirra vegna þátttöku í atvinnurekstri og atvinnuuppbyggingu hér á landi einkum eftir einkavæðingu ríkisbankanna tveggja, Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.“ Vísað er til þess í stefnunni á hendur Inga Frey og blaðinu að lögum samkvæmt sé hatursáróður bannaður í fjölmiðlum.

Ummælin sem þeir Ágúst og Lýður vísa í úr leiðaranum eru eftirfarandi:

„Þetta voru peningar sem þeir höfðu tekið í arð út úr íslenskum hlutafélögum sínum á árunum fyrir hrunið.“

„Bakkabræður halda hins vegar arðgreiðslum upp á milljarða sem þeir tóku út úr eignarhaldsfélaginu sem þarf að afskrifa 22 milljarða hjá.“

„Arðgreiðslurnar byggðu því á blekkingum.“

„Þau uppkaup kunna að vera fjármögnuð með arðgreiðslunum sem þeir tóku út úr íslenska hagkerfinu á árunum fyrir hrunið.“