Bakkavararhúsið
Bakkavararhúsið

„Þetta er einstakt hús. Það eru reyndar engin tilboð komin í húsið. En áhuginn er mikill, bæði frá einstaklingum og fyrirtækjum,“ segir Brandur Gunnarsson, leigumiðlari og fasteignasali hjá fasteignasölunni Stakfelli.

„Menn hafa lýst yfir áhuga á að kaupa húsið. En það er ekki til sölu.“

Fasteignasalan Stakfell auglýsti á mánudag hús Bakkavarar við Tjarnargötu til leigu. Leiguverðið er litlar 1,2 milljónir króna á mánuði.

Fermetraverðið er rétt rúmar þrjú þúsund krónur en Bakkavararhúsið er 395,6 fermetrar að flatarmáli með útsýni yfir Reykjavíkurtjörn.

Bakkavör hefur nýtt húsið undir skrifstofur og hefur enginn búið í því.

Fram kemur á vefsíðu Stakfells að fasteignamat hússins sé tæpar 96,6 milljónir króna og brunabótamatið rúmar 162,7 milljónir.

Húsið var byggt árið 1913. Bakkavör, sem bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir stofnuðu fyrir rúmum 20 árum en misstu í hendur kröfuhafa eftir hrun, keypti húsið við Tjörnina í september árið 2004. Það hefur nánast allt verið endurnýjað frá grunni með nýjum innréttingum og tækjum.