Bakkavör á í viðræðum við banka sína um 150 milljónir punda sem sitja fastar í Kaupþingi, að því er segir í FT í dag. Þar segir að hætta sé á að þetta verði til þess að Bakkavör brjóti einhver tæknileg skilyrði í lánasamningum sambankalána.

Rekstur Bakkavarar er stöðugur, á ekki í vandræðum með lausafé og er fjármagnaður í Bretlandi. Á Íslandi er hins vegar lítið af erlendum gjaldeyri, sem gerir það að verkum að Kaupþing getur ekki millifært gjaldeyriseign Bakkavarar til Bretlands, að sögn FT.

Þar segir að Bakkavör vinni með Rothschild bankanum við að semja um málið við 17 banka. Engar vísbendingar séu þó um að Bakkavör skorti lausafé og FT hefur eftir Bakkavör að inneign félagsins í Kaupþingi sé að fullu varin af innstæðutryggingasjóði.