Eftir lokun markaða í gær tilkynnti Bakkavör um að hluthafafundur verði haldinn 28. október næstkomandi. Ætlunin er að auka hlutafé félagsins um 750 m.kr. að nafnvirði með áskrift nýrra hluta en miðað við lokagengi félagsins á markaðnum í gær nemur það um 21 mö.kr. Lagt er til að núverandi hluthafar félagsins fái forkaupsrétt af þessum hlutum. Þar að auki er ætlunin að gefa út allt að 40 m.kr. að nafnvirði með sölu til starfsmanna og er það tillaga stjórnar að hluthafar falli frá forkaupsrétti sínum af þessum hlutum.

Þessi frétt styður þá skoðun Greiningardeildar Landsbankans að Bakkavör ætli sér að reyna yfirtöku á Geest á næstu misserum og er þessi hlutafjáraukning líklega enn eitt skrefið í því ferli. Þann 30. september síðastliðinn stækkaði félagið t.a.m. skuldabréfaflokk sinn BAKK 03 1 um 2 ma.kr. og er flokkurinn nú kominn í 11,5 ma.kr. en honum er, líkt og þessari hlutafjáraukningu, ætlað að styrkja uppbyggingu á kjarnamörkuðum félagsins.

Minni hlutafjáraukning en Greiningardeild Landsbankans hafði reiknað með
Í nýlegri greiningu á Bakkavör var gert ráð fyrir hlutafjáraukningu í tengslum við yfirtöku á Geest upp á 31,5 ma.kr. að markaðsvirði og var þá miðað við að eiginfjárhlutfall hins sameinaða félags yrði 35%. Stjórnendur félagsins hafa gefið út að ætlunin sé að vera með hlutfallið á bilinu 30%-40% og var því miðað við 35%. Ef útgáfan nú er vegna yfirtöku á Gees yrði eiginfjárhlutfall sameinaðs félags 26,5% miðað við stöðu efnahags hjá Bakkavör fyrstu 6 mánuði ársins og hjá Geest um síðustu áramót.

Byggt á Vegvísi Landsbankans