Hlutabréf í Bakkavör hafa verið í frjálsu falli líkt og flest hlutabréf í heiminum síðustu daga. Hlutabréfaverðið stóð í 70 penníum á hlut við lokun markaða í föstudag og hafði þá fallið um 50% á einum mánuði. Á sama tímabili hefur breska FTSE 100 vísitalan lækkað um 30% og vísitala breskra matvælaframleiðenda um 31%.

Sjá einnig: Bakkavör lokar í Wuhan

Markaðsvirði félagsins hefur lækkað að jafnvirði um 67 milljarða króna á mánuði. Markaðsvirði félagsins var ríflega 800 milljónir punda fyrir fjórum vikum, um 134 milljarðar króna miðað við núverandi gengi, en er nú komið í ríflega 400 milljónir punda eða um 67 milljarða króna. Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir eiga 50,16% hlut í Bakkavör en Ágúst er forstjóri félagsins.

Bakkavör greindi frá því á þriðjudaginn að félagið hafi endurfjármagnað skuldir sínar fyrir 455 milljónir punda, um 75 milljarða króna. Vextir lánsins eru að hluta tengdir hve vel Bakkavör tekst til við að vinna gegn matarsóun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi sinni.

. Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .