Bakkavör Group mun birta uppgjör sitt fyrir þriðja fjórðung á morgun, samkvæmt dagatali Kauphallarinnar. Greiningardeildir viðskiptabankanna þriggja hafa allar birt afkomuspár fyrir þriðja fjórðung Bakkavarar Group.

Greiningardeild Glitnis reiknar að rekstrartekjur Bakkavarar Group verði 317,1 milljón pund (40,7 milljarðar króna) á fjórðungnum. Greiningardeild Kaupþings banka reiknar með að veltan verði 326,4 milljón pund (41,9 milljarðar króna) og greiningardeild Landsbankans spáir að tekjur muni nema 309,9 milljónum punda (39,8 milljarðar króna).

Greiningardeild Glitnis reiknar með að EBITDA nemi 40,7 milljón pund (5,2 milljarðar króna), greiningardeild Kaupþings banka reiknar með að EBITDA verði 39,3 (5 milljarðar króna) og greiningardeild Landsbankans reiknar með að EBITDA verði 35 milljón pund (4,5 milljarðar króna).

Greiningardeild Glitnis spáir að hagnaður Bakkavara Group verði 15,5 milljón pund (2 milljarðar króna) á fjórðungnum, greiningardeild Kaupþings banka spáir að hagnaðurinn verði 12,1 milljón pund (1,6 milljarðar króna) og greiningardeild Landsbankans reiknar með að hagnaðurinn nemi 10,9 milljón pund (1,4 milljarðar króna).