Bakkavör Group mun birta uppgjör sitt fyrir annan ársfjórðung á morgun og þykir greiningardeild Glitnis athyglisvert að sjá afkomu fjórðungsins.

?Við gerum ráð fyrir að hagnaðurinn nemi 12,4 milljónum punda [1,6 milljarður króna] og að hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) verði 38,1 milljónir punda [5 milljarðar króna]. Samanburður á milli ára er ómarktækur vegna ytri vaxtar á síðustu 12 mánuðum en vænt aukning á milli ára er veruleg," segir greiningardeildin.

Greiningardeild býst við ríflega tvöföldun á hagnaði og hagnaður fyrir afskriftir aukist um 40%.

?Væntur afkomubati er umtalsverður m.a. vegna ársfjórðungslegra sveiflna því matarvenjur og neyslumynstur Breta sem annarra fylgir veðurfari mjög náið. Undanfarið hefur félagið birt afkomutölur sínar eftir lokun markaða og gerum við ráð fyrir að sá verði einnig hátturinn á nú," segir greiningardeildin.