Bakkavör Group greiddi á föstudaginn samtals 73,7 milljarða króna fyrir Geest Plc. Með greiðslunni hefur Bakkavör Group uppfyllt alla skilmála kaupanna og er yfirtaka félagsins á Geest þar með að fullu frágengin. Bakkavör Group er nú stærsti framleiðandi tilbúinna kældra og ferskra matvæla í Bretlandi með um 29% markaðshlutdeild. Félagið rekur 42 verksmiðjur og fer meginhluti starfseminnar fram í Bretlandi en auk
þess er félagið með rekstur í Frakklandi, Belgíu, Spáni og Suður-Afríku. Starfsmenn félagsins eru um 13 þúsund.

Vöruflokkar Bakkavör Group eru samtals 17 og framleiðir félagið nú bæði ferskar og kældar tilbúnar matvörur. Með kaupunum verður ferskt tilbúið salat, pizzur auk tilbúinna kældra rétta meðal helstu vöruflokka félagsins.

Í kjölfar kaupanna hefur stjórn Bakkavör Group samþykkt skipulagsbreytingar á félaginu. Er tilgangurinn að ná fram sem mestum samlegðaráhrifum í rekstri félagsins og stærðarhagkvæmni auk þess að nýta til fulls þá þekkingu og reynslu sem sameinað félag hefur yfir að ráða.

Öll starfsemi Bakkavör Group í Bretlandi verður sameinuð undir merkjum Geest og verður Gareth Voyle forstjóri þess.

Áhrif yfirtöku Geest á rekstur og efnahag Bakkavör Group koma fram í næsta uppgjöri félagsins. Helstu áhrif yfirtökunnar á reksturinn felast í auknum árstíðasveiflum, breyttu hlutfalli EBITDA framlegðar og auknum hagnaði. Árstíðasveiflur í rekstri stafa af mismikilli sölu vöruflokka félagsins eftir árstíma en eftirspurn eftir salati, sem er nú stærsti vöruflokkur félagsins er mest á öðrum ársfjórðungi en minnst á þeim fyrsta. Áhrif árstíðasveiflna verður helst að merkja á EBITDA félagsins þar sem annar ársfjórðungur er að jafnaði hagstæðastur en fyrsti og þriðji fjórðungur eru að jafnaði lægstir. Jafnframt má merkja sveiflur í frjálsu fjárflæði frá rekstri sem er að jafnaði lægst á fyrsta ársfjórðungi sem skýrist af minni sölu
salats yfir vetrarmánuðina eins og fyrr segir.

Framsetning á sölu félagsins verður með nýjum hætti en nú verður greint frá landfræðilegri skiptingu sölunnar og afkomu milli Bretlands og meginlands Evrópu. Um 91% sölu félagsins er í Bretlandi og 9% á
meginlandi Evrópu. Auk þess verður greint frá tekjuskiptingu félagsins eftir vöruflokkum.

Fyrir yfirtöku Bakkavör Group á Geest var yfirlýst markmið félagsins að vaxa um 18-20% með innri og ytri vexti. Eftir yfirtöku félagsins á Geest verða langtímamarkmið félagsins mismunandi eftir markaðssvæðum.
Markmiðið er að innri vöxtur félagsins í Bretlandi verði í samræmi við áætlaðan vöxt markaðarins á hverjum tíma. Ytri vöxtur félagsins verður nú aðallega á meginlandi Evrópur og í Asíu og einungis verður um minniháttar yfirtökur að ræða í Bretlandi. Markmið félagsins um vöxt á meginlandi Evrópu er 20% og félagið gerir ráð fyrir að hefja starfsemi í Asíu og verða með því þátttakandi á ört vaxandi markaði fyrir neytendavörur. Langtímamarkmið félagsins um EBITDA framlegð var áður 18-20% en verður nú 12-14%. Með langtímamarkmiðum er miðað við afkomu á ársgrundvelli og taka til næstu 4-6 ára.