Bakkavör Group hefur keypt 51% hlut í tékkneska matvælaframleiðandanum Heli Food Fresh og þar með styrkt stöðu sína enn frekar á meginlandi Evrópu. Félagið mun kaupa eftirstandandi hlutafé í fyrirtækinu í apríl 2010 segir í frétt félagsins.

Heli Food Fresh sérhæfir sig í að framleiða tilbúna rétti, súpur og sósur fyrir austur evrópskan markað. Velta fyrirtækisins er 298 milljónir króna (3,6 milljónir evra) og helstu viðskiptavinir þess eru leiðandi evrópskir stórmarkaðir. Fyrirtækið er staðsett suður af Prag og er með 76 starfsmenn í vinnu.

Kaupin voru fjármögnuð úr sjóðum félagsins en kaupverðið er trúnaðarmál. Kaupin munu hafa óveruleg áhrif á afkomu félagsins.


?Kaupin í Heli Food Fresh eru liður í því að styrkja stöðu okkar á meginlandi Evrópu. Markaðurinn fyrir tilbúna rétti hefur vaxið hratt í austur Evrópu og þessi kaup gefa okkur tækifæri til að styðja við útrás viðskiptavina okkar á þessu markaðssvæði, en Heli Food Fresh á nú þegar í viðskiptum við marga af lykilviðskiptavinum okkar," segir Ágúst Gudmundsson forstjóri í tilkynningunni.